Norðurþing í gíslingu Alcoa og sveitarstjórnarmeirihlutans

Nú hefur Kolbrún Halldórsdóttir, umhverfisráðherra, sagt að líklega sé of seint að stöðva framkvæmdir við Helguvík en um leið bent réttilega á að öll áform Alcoa um álver við Bakka norðan Húsavíkur liggja niðri og raunar orðið mjög ólíklegt að þar rísi nokkurn tímann álver. Mér þykir miður ef ekki er hægt að stöðva framkvæmdir við Helguvík en fagna um leið einarðri afstöðu umhverfisráðherra gagnvart álvershugmyndum Alcoa og meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings með sveitarstjórann í broddi fylkingar:

1. Samningur milli Alcoa og Landsvirkjunar um orku vegna fyrirhugaðs álvers við Bakka rann út sl. haust og var ekki framlengdur.

2. Til er viljayfirlýsing meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings og Alcoa, sem aldrei fór formlega fyrir sveitarstjórn Norðurþings. Þessi viljayfirlýsing er um að heimamenn semji ekki um orkusölu til annarra aðila en Alcoa og rennur út næsta haust.

3. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf. eru farin að líta til annarra aðila um orkusölu.

4. A.m.k. 2 fyrirtæki hafa sýnt áhuga á að reisa kísilflöguverksmiðju í landi Norðurþings og nota orku frá Þeistareykjum til framleiðslunnar.

5. Slík verksmiðja gæti skapað meira en 150 störf. Hún þarf mun minni orku en álver og raunar er hægt að fullnægja orkuþörfinni nú þegar. Mengun frá slíkri verksmiðju yrði a.m.k. 10 sinnum minni en frá álveri.

6. Húsvíkingar geta fengið kísilflöguverksmiðju - núna!

7. Sveitarstjóri og meirihluti sveitarstjórnar veifa úreltri viljayfirlýsingu og hrópa hjáróma: "Álver - Alcoa, álver - Alcoa". Afstaða meirihlutans gæti leitt til þess að við missum af þessu tækifæri.

8. Er meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings á móti annarri atvinnuuppbyggingu í héraðinu en álveri? Ætlar meirihlutinn að láta sveitarstjórann og Alcoa teyma sig áfram á asnaeyrunum næstu árin og jafnvel lengur?

9. Eða fer það fyrir brjóstið á meirihlutanum að kísilflöguverksmiðjan er dæmi um "eitthvað annað" í boði VG?


mbl.is Álver í Helguvík en ekki á Bakka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Össur bar þessa frétt Kolbrúnar til baka í fréttum á Stöð 2. Þessi ríkisstjórn getur ekkert gert til að breyta samkomulagi á milli ríkisins, Alcoa og heimamanna. Jú, ekki var endurnýjað en það þýðir ekki að verkefnið sé búið. Alcoa þarf að endurnýja álversflotann sinn, eiga svo mörg gömul og úr sér gengin álver. Næsta álver þeirra mun rísa á Bakka. En Kolbrún og Össur verða að tala betur saman. Hélt reyndar að VG og Samfó myndur aldrei getað myndað ríkisstjórn út af þessum málum. Össur verður að keyra þetta í gegn og gerir það. En Alcoa er með boltann. Ef þeir vilja fer þetta í gang.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 22:15

2 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Ég er alsæll með þessa yfirlýsingu Kollu - bara meira af þessu frá VG og Samfylkingu 

Síðan legg ég til að VG skoði ummæli Hjörleifs Guttormssonar alvarlega varðandi friðun Dreka svæðisins  

Guðbjörn Guðbjörnsson, 2.2.2009 kl. 22:30

3 Smámynd: Gunnlaugur Stefánsson

Þetta er nú meira bullið í þér Björgvin! Hver er tilbúinn að reisa kísilflöguverksmiðju á Húsavík, NÚNA???   Þetta hljómar eins og Vaðlaheiðagöng strax hjá Kristáni Möller í síðustu kosningabaráttu, og ekkert bólar á þeim ennþá.

Þú verður nú að vera aðeins málefnalegur ef þú vilt að mark sé á þér tekið.

Gunnlaugur Stefánsson, 2.2.2009 kl. 22:39

4 identicon

Þeir sem hafa fengið greitt reglulega frá hinu opinbera hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af því hvaðan peningarnir koma, kanski verður breyting þar á. Það verður því miður aldrei nokkurn tímann eitt eða neitt "NÚNA" þegar verið er að tala um að framkvæmdir á landsbyggðinni.

Guðni (IP-tala skráð) 2.2.2009 kl. 23:10

5 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Æ Gunnlaugur, reyndu nú að skola álrykið út úr skynfærunum. Landsvirkjun og Þeistareykir ehf eru í viðræðum um orkusölu til fyrirtækja, sem hafa áhuga á að reisa kísilflöguverksmiðju hér á landi, t.d. í Norðurþingi ef orka og land fæst undir starfsemina.

Þeir eru hins vegar ekki tilbúnir til að bíða endalaust eftir svari frá meirihluta sveitarstjórnar Norðurþings.

Aðalsteinn Örn Snæþórsson, fulltrúi VG í sveitarstjórn, skrifar ágæta grein um þetta mál í síðasta tölublað Skarps, héraðsfréttablaðs Þingeyinga. Ég er viss um að þú ert búinn að lesa greinina. Ég veit líka að Steingrímur J. Sigfússon er búinn að reyna að þoka málinu áfram.

Ég eftirlæt öðrum að dæma um hvor okkar er málefnalegri, Gunnlaugur.

Björgvin R. Leifsson, 2.2.2009 kl. 23:51

6 identicon

Svo það sé öllum ljóst hefur orku vegna hugsanlegs álvers í Helguvík enn ekki verið aflað og sveitarfélög ekki samþykkt línulögn í gegnum þeirra land. Þar kemur umhverfisráðherra að máli. Af þessu má dæma að verkefnið Helguvík og Bakki sitja ekki við sama borð að hálfu ráðherrans enda um fleiri atkvæði að ræða á SV-horninu. Það er því dapurlegt afstaða að halda því fram að umhverfisráðherra geti ekki, sé það einörð afstaða hans, stöðvað framkvæmdir tengdar fyrirhuguðu álveri í Helguvík. Ég bið Björgvin um að upplýsa fólk um það hvaða tvö fyrirtæki það eru sem hafa lýst fyrir áhuga á byggingu kísilflöguverksmiðju við Bakka sé það í raun vilji hans að slík verksmiðja líti dagsins ljós. Vegna ummæla Björgvins um minni mengun þá segi ég þetta; ef ég keyri smábíl, Toyota Yaris, eyðir/mengar hann hlutfallslega litlu í akstri en kemst lítið í miklum snjó og væri fljótur að festa mig. Ef hins vegar Björgvin ætti Toyota LandCruiser jeppa eyðir/mengar hann meira en litli bílinn en kæmist töluvert lengra í miklum snjó. Þess vegna er það fyrirsláttur og í raun lélegur reikningur að segja að lítil kísilflöguverksmiðja mengi minna en stór álverksmiðja. Það segir sig sjálft. Ég fagna hugmyndum Vg um kísilflöguverksmiðju enda þýðir það nýtingu orkuauðlinda í Þingeyjarsýslu og geri ráð fyrir að Björgvin styðji slíkt. Hvert hafa þeir leitað sem vilja reisa hér kísilflöguverksmiðju? Hafa þeir, ef satt er, aðeins leitað á náðir Vg? Vissulega eru margir um hituna og vilja kaupa orku en ég vara við því að gleypa hvaða bita sem er. Heldur þarf að skoða alla kosti af því gefnu að "einhver" hafi yfirhöfuð boðið eitthvað fram og lagt inn erindi um að vilja kaupa orkuna. Álver er ekki lausnin heldur er þá lausn sem hefur verið unnið að undanfarin ár. Það er nauðsynlegt að tala í raunverulegum lausnum ekki ekki fortíðarhyggju og aðeins uppbyggingu opinberra starfa líkt og Vg hefur gert. En ég fagna enn og aftur þessu frumkvæði Vg um kísliflöguverksmiðju og vona að þeir kynni þennan kost betur sé hann raunverulegur. Þetta er eina dæmið sem fram hefur komið úr pakkanum "eitthvað annað" að hálfu Vg og er það vel en tími til kominn að gera sig gildandi eftir að hafa staðið á hliðarlínunni í 17 ár. Vg og formaðurinn Steingrímur J. tilkynnti alþjóð að hann hefði lausnapakka og ég kalla eftir honum, hvar er hann? Núna þegar tækifæri Vg er sannarlega upprunnið þá vænti ég þess að þeir nýti það og beri því hvergi við að aðstæður séu of erfiðar. Að lokum tvennt; annars vegar vil ég ítreka þá furðu mína að ný umhverfisráðherra skuli líta á fólk utan höfuðborgarsvæðisins sem annars flokks fólk með því að setja stein í götu atvinnuuppbygginar á svæðinu, hinsvegar dreg ég þá ályktun að sú grein sem birtist Skarpi hafi verið unnin á flokksskrifstofu Vg í Reykjavík án þess að ég hafi nokkuð fyrir mér í því og því aðeins getgátur þar um. Ég fagna aðkomu Björgvins að atvinnuuppbyggingu á svæðinu og treysti því að hann standi með Þingeyingum í orkunýtingu til atvinnuuppbyggingar til hagsbóta fyrir svæðið.

Kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 00:55

7 identicon

Eitt enn varðandi blindi meirihluta sveitarstjórnar á álver Alcoa við Bakka og blindni Björgvins og Vg á kísilflöguverksmiðju þá spyr ég hvor er meira fífl, fíflið sjálft eða fíflið sem elti fíflið? Og þetta, hvers vegna hefur afstaða Vg og Steingríms J. breyst vegna kísilverksmiðju? Svörin ættu að vera fróðleg og upplýsandi hjá Björgvini.

Kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 08:00

8 identicon

Góður, Hjálmar Bogi!

Benedikt Sigurjónsson (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 13:48

9 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Sæll Hjálmar Bogi, elsku framsóknargulldrengurinn minn. Ég vil byrja á að minna þig á að þú hefur enn ekki svarað spurningu minni á öðrum þræði hér um hvers vegna einn fulltrúa þinna í sveitarstjórn Norðurþings greiddi atkvæði GEGN tillögu fulltúa VG um að kannað yrði hvort hægt væri að reisa áburðarverksmiðju í héraðinu. En að þínum athugasemdum, ekki endilega í þeirri röð, sem þær komu.

Ég vil byrja á að upplýsa þig um að VG hefur aldrei verið á móti skynsamlegri orkunýtingu til atvinnuuppbyggingar í Þingeyjarsýslum. Við höfum hins vegar ekki viljað setja ALLA fáanlega orku, hugsanlega þmt virkjun í Skjálfandafljóti, í eitt risaálver með tilheyrandi umhverfisraski og gríðarlegri loftmengun og skuldbinda okkur marga áratugi fram í tímann um orkusölu. Þannig hefur afstaða VG og SJS ekkert breyst. Við leggjum kísilverksmiðju EKKI að jöfnu við risaálver. Varðandi tal þitt um fífl, þá bendi ég þér á að það eru þín orð en ekki mín.

Þú spyrð hvaða fyrirtæki þetta eru, sem áhuga hafa á að reisa hér kísilflöguverksmiðju. Ég biðst afsökunar á að hafa gefið mér fyrir fram að þú fylgist með fréttum. Hér eru nokkrir fróðlegir tenglar handa þér á nýlegar fréttir í RÚV:

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item245442/

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item245833/

http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item246595/

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item248457/

Þú kíkir á þetta við fyrsta tækifæri þykist ég vita.

Nú, varðandi samlíkingu þína við bílana. Hún er stórkostleg og lýsir vel hugmyndaflugi þínu. Ef ég skil þig rétt er Yarisinn kísilflöguverksmiðjan en LandCruiserinn er risaálver Alcoa. Eða hvað? Hvernig þú færð svo út að það sé fyrirsláttur að lítil kísilflöguverksmiðja mengi minna en risaálver er mér gersamlega hulið. Það liggur fyrir að mengun og önnur umhverfisáhrif frá kísilflöguverksmiðju af þessari stærðargráðu eru mun minni en frá risaálveri Alcoa. Hún mun líka þurfa mun minni orku, sem þegar er til staðar og mun ekki binda hendur okkar varðandi orkusölu til annarrar atvinnustarfsemi í framtíðinni líkt og risaálverið mundi gera.

Eftirfarandi setning þín er gullkorn, sem enginn annar en þú gæti látið frá sér fara:

"hinsvegar dreg ég þá ályktun að sú grein sem birtist Skarpi hafi verið unnin á flokksskrifstofu Vg í Reykjavík án þess að ég hafi nokkuð fyrir mér í því og því aðeins getgátur þar um."

Að lokum lýsi ég ánægju minni með að þú segist fagna frumkvæði VG í þessu máli og að þú skulir styðja okkur í því að reyna að fá "eitthvað annað" hingað norður til atvinnuuppbyggingar. Ég og aðrir félagar í VG standa "með Þingeyingum í orkunýtingu til atvinnuuppbyggingar til hagsbóta fyrir svæðið." Það höfum við alltaf gert. Svo framarlega sem lausnirnar eru skynsamlegar til lengri tíma litið.

Björgvin R. Leifsson, 3.2.2009 kl. 20:31

10 identicon

Gull stendur alltaf fyrir sínu og fellur seint í verði og vil ég þakka Björgvini fyrir góð orð í minn garð. Varðandi afstöðu fulltrúa B í sveitarstjórn Norðurþings vegna áburðarverksmiðju hafði ég gert ráð fyrir að Björgvin ynnti hann sjálfan um svar vegna sinnar afstöðu. Ég segi ekki hvaða afstöðu fólk skal hafa í einstaka málum og rétt vona að fólk vinni samkvæmt sinni sannfæringu hvar sem er í flokki. Vinstri grænir hafa um langt skeið bent á "eitthvað annað" vegna atvinnuuppbyggingar og gleymist seint listi sem þeir birtu þar sem m.a. var fjallað um fleiri störf hjá Sýslumanninum á Húsavík. Sá listi byggðist fyrst og fremst á opinberum störfum og þenslu hins opinbera. Ég fagna þess vegna þeirri vakningu innan Vg að það er nauðsynlegt að beisla orku, selja hana í orkufrekan iðnað og skapa verðmæti, hvort heldur sem er álverksmiðja eða kíslilflöguverksmiðja. Slíkt skapar tekjur fyrir sveitarfélagið og útflutningsverðmæti fyrir þjóðina. Mér leiðist hræðsluáróður Vg um að hér muni öll orka hér á svæðinu klárast vegna álvers á Bakka. Að telja skynsemi í því dæmir sig sjálft. Ég vil minna á að sveitarfélagið, ríkið og Alcoa gerðu með sér þríhliðasamkomulag þar sem vinna skyldi að verkefninu og hefur það gengið eftir þar til Þórunn Sveinbjarnardóttir lagði stein í götu þess og síðar fjármálakreppu á jörðinni. í kjölfar hennar þarf að endurmeta alla hluti þ.m.t. möguleika til atvinnuuppbyggingar og nýtingu orkunnar. Ég tel sjálfan fylgjast vel með fréttum og þær fréttir sem Björgvin vísar hef ég séð. Hafa fyrirtækin óskað eftir viðræðum við sveitarfélagið Norðurþing? Margar fréttir birtast um aðila sem vilja fjárfesta í orku og vil ég þar nefna Rússana sem komu og ætluðu að byggja álver. Átti að gleypa þær hugmyndir og skella sér í framkvæmdir? Því skal haldið til haga hvers vegna var farið í orkurannsóknir en það var vegna þess að stór kaupandi á orku var til staðar. Björgvin fjallar um að lítil kísilverksmiðja mengi minna en RISA álver og það sér hver maður svo fremi sem kísilverksmiðjan er minni en RISA álverið þá þarf ekki stærðfræðing til að sjá það út. Björgvin segir að kísilverksmiðja þurfi minni orku en það álver sem um ræðir. Eru Vg með tryggingu fyrir því að sá sem hyggst reisa kísilverksmiðjuna muni ekki fara fram á stækkun og vilja meiri orku? Steingrímur sagði í fréttum 28. janúar áform um kísilverksmiðju gætu farið fljótt af stað og segir jafnframt að okkur veiti ekki af og vænti ég þess að maðurinn setji verkefnið á kortið og geri allt sem í sínu valdi stendur til að greiða götur verkefnisins. Eða er afstaða hans breytt eftir að hann komst í ríkisstjórn? Það sem vekur furðu manns og Björgvin fjallar ekkert um það í svari sínu hví Steingrímur J. tekur þessa afstöðu nú. En hann er sá maður sem barðist hvað mest fyrir lokun Kísiliðjunnar í Mývatnssveit og fagnaði því opinberlega þegar henni var lokað. Hver er líftími kísilverksmiðja líkt og þeirri sem Björgvin fjallar um á móti líftíma álvers? Að lokum vil ég enn fagna vitundarvakningu innan Vg um nýtingu orkunnar Þingeyingum til framdráttar enda tími til kominn eftir að hafa verið það afl sem hefur staðið í vegi fyrir, hindrað eða viljað "eitthvað annað" vegna þess að stefna Vg miðast við uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins fyrst og fremst. Því er þessi vitundarvakning Vg mér mikið fagnaðarefni.

Kveðja

Hjálmar Bogi (IP-tala skráð) 3.2.2009 kl. 23:19

11 Smámynd: Karl Tómasson

Er álryk enn í augum fólks? Mér er spurn.

Bestu kveðjur til þín Björgvin frá Kalla Tomm úr Mosó.

Karl Tómasson, 4.2.2009 kl. 00:02

12 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Já Kalli, því miður, þetta kallast líka að ganga í björg.

Hjálmar, þú baðst mig í aths. nr. 6 hér að ofan að upplýsa um hvaða fyrirtæki þetta væru þannig að ekki fylgistu nú vel með fréttum. Jafnvel þó að kísilflöguverksmiðja yrði stærri en ráð er fyrir gert í upphafi þyrfti hún samt mun minni orku en risaálver Alcoa. Kísiliðjan í Mývatnssveit var allt annað fyrirbæri með allt öðruvísi starfsemi en kísilflöguverksmiðja og það veistu vel. Eða kannski veistu ekkert í þinn haus.

VG hefur alltaf viljað skynsamlega "nýtingu orkunnar Þingeyingum til framdráttar". Við höfum hins vegar ekki talið risaálver skynsamlegan kost og verið óþreytandi við að benda á "eitthvað annað". Nú stendur "eitthvað annað" okkur til boða. Meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings vill hins vegar ekkert annað en risaálver og er því farinn að standa atvinnuuppbyggingu í héraðinu fyrir þrifum.

Björgvin R. Leifsson, 4.2.2009 kl. 08:24

13 identicon

Ég tel rétt að ég komi fram á sjónarsviðið og útskýri afstöðu mína til áburðarverksmiðjunnar.

Á sveitarstjórnarfundi fyrir fáeinum mánuðum lá fyrir erindi frá fulltrúa VG um áburðarverksmiðju. Kom það ekki svo löngu eftir að ljóst hafði verið og bókað í fundargerð byggðarráðs að fulltrúar VG hefðu ekki komið með eina einustu tillögu um atvinnuuppbyggingu í héraði frá því að sveitarfélagið Norðurþing var til. Eitthvað hafa VG liðar verið farnir að finna fyrir þessari pressu og spiluðu því þessum trompi fram glaðbeittir.

Fyrir fund lá ekki fyrir út á hvað tillagan gekk. Þannig var ekki nein gögn með tillögunni, í það minnsta ekki sem ég fékk í hendur, og því renndi ég blint í sjóinn á þessum sveitarstjórnarfundi og beið spenntur eftir því hvaða tillögur fulltrúi VG hafði í þessu samhengi og var að vona að hann hefði nú eitthvað spennandi í höndunum.

En nei! Fulltrúi VG var með svo gott sem EKKERT í höndunum. Það eina sem hann gat vitnaði í var lítil grein úr Bændablaðinu um vinnu sem íbúar við Blönduós hafa verið í og eru komnir vel af stað með um að reisa áburðarverksmiðju þar. Ég hafði nú einnig lesið þessa grein og vonaði að þetta væri hægt.

Þá er spurningin, er markaður fyrir TVÆR áburðarverksmiðjur á Íslandi, eina við Blönduós og AÐRA við Húsavík? Nú er ágætt að hafa í huga að hér var áburðarverksmiðja sem er búið að leggja niður. Þá fór af stað ferli til að kanna hvort hagkvæmt væri að byggja nýja verksmiðju en svo var ekki í það skiptið. Vissulega eru nýjar aðstæður núna svo vel má vera að þetta sé mögulegt. En fjandakornið, seint verður nú markaður fyrir tvær verksmiðjur hér á landi, tala nú ekki um tvær á Norðurlandi. Ég taldi því rétt að þeir sem eru komnir af stað með þessa vinnu fái að halda henni áfram í friði og vona svo sannarlega að þeim takist ætlunarverk sitt.

Í máli sveitarstjóra á fundinum kom aukinheldur fram að athugun hefði farið fram á þessu á vegum Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga og niðurstaðan hafi verið sú að þetta væri ekki eitthvað sem rétt væri að horfa til.

Á þessum forsendum sá ég ekki ástæðu til þess að greiða því atkvæði að sóa tíma sveitarstjóra í að kanna eitthvað sem er þegar farið vel af stað hér á landi, sérstaklega í ljósi þess að fulltrúi VG hafði EKKERT í höndunum annað en stutta blaðagrein. Ég er nú reyndar hissa á mér að hafa verið undrandi yfir þessum illa undirbúnu og lélegu tillögum fulltrúa VG. Sá háttur hefur nefnilega verið á hjá VG að vera með lélegar tillögur í atvinnumálum, samanber bjórverksmiðjan hans Steingríms í síðustu kosningabaráttu og bakaríið hennar Þuríðar Backman, þið vitið, þetta sem átti að koma í staðinn fyrir stóriðju á Austurlandi.

Ég er því ekki á móti atvinnuuppbyggingu hér í mínu heimahéraði og er nú frekar hissa á að vera vændur um það. En illa ígrundaðar og algjörlega óraunhæfar tillögur eru nokkuð sem ég sé ekki ástæðu til að styðja.

Reyndar held ég að enginn sé raunverulega á móti atvinnuuppbyggingu. Menn vilja bara fara mismunandi leiðir. Já, svo eru líka til þeir sem vita ekki alveg hvaða leið þeir vilja fara.

Aðalsteinn Jóhannes Halldórsson (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 18:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband