Um þjóðaratkvæðagreiðslur

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er í rauninni ekki mikið fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þær ber þó á góma í eftirtöldum greinum:

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis.
Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.
Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi] ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Hér er um að ræða 3 greinar. Í 11. grein er fjallað um þjóðaratkvæði um vantrausttillögu Alþingis á forseta Íslands. Á það hefur aldrei reynt.
Í 26. grein er ákvæðið um neitunarvald forsetans og hvernig höfundar stjórnarskrárinnar ætluðu þjóðinni að staðfesta eða synja þeirri neitun. Á þetta hefur einu sinni reynt með þeim hætti (Icesave lögin) en þegar forseti synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar árið 2004 komu stjórnvöld sér undan skyldum sínum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með því að draga lagafrumvarpið til baka þrátt fyrir að 26. greinin taki af öll tvímæli um að leggja skuli "frumvarpið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu svo fljótt sem auðið er". Hér var því um augljóst stjórnarskrárbrot að ræða. Ekki get ég séð að hægt sé að skýla sér á bak við óljós fyrirmæli 26. greinar. Hins vegar ætti löggjafinn að vera löngu búinn að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi, byggð á grunnlögum þjóðarinnar í stjórnarskránni.

Fyrri hluti 79. greinar er líklega sá klúðurslegasti og gerir það að verkum að erfitt hefur verið að ná fram miklum breytingum á stjórnarskránni og í rauninni má deila um hvort farið hafi verið eftir þessu ákvæði í hvívetna þegar stjórnarskrárbreytingar hafa verið samþykktar. Þá er fráleitt að Alþingi hafi síðasta orðið en ekki þjóðin, sem þó er sá aðili, sem gerir stjórnarskrársáttmálann við sjálfa sig og felur svo Alþingi að setja landinu lög til samræmis við sáttmálann.

Það sem ég vil gera er eftirfarandi:
1. Allar breytingar á stjórnarskránni fari í dóm þjóðarinnar - þjóðaratkvæði - en ekki dóm Alþingis.
2. Allar synjanir forseta Íslands á lagafrumvörpum frá Alþingi fari í þjóðaratkvæði.
3. Allir milliríkjasamningar og samningar, sem kunna að fela í sér valdaafsal til alþjóðlegra samtaka, ríkjasambanda eða hernaðarbandalaga, hvort sem afsalið er staðbundið eða tímabundið eður ei, fari í þjóðaratkvæði.
4. Ákveðinn hluti alþingismanna eða kosningabærra manna í landinu geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, sem varða þjóðarhag, miklar deilur standa um o.s.frv.
5. Að hver sá, sem reynir að sniðganga stjórnarskrána hvað ofangreint varðar verði látinn sæta refsingu.
6. Að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna verði bindandi fyrir ríkisstjórn og Alþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband