Sökudólgar og blórabögglar (löng grein)

Þegar bankahrunið varð á Íslandi gerðu stjórnvöld mikið úr því að ekki ætti að fara að leita að sökudólgum (og þaðan af síður blórabögglum) strax, heldur ætti að bíða með hvítþvottinn þar til síðar. Síðan hafa þessi sömu stjórnvöld keppst við að finna hrunadönsurum útgönguleiðir, þannig að þau (eru þau ekki 30 kk + 3 kvk?) tapi nú sem minnstu (og helst græði á öllu saman) og sleppi við alla ábyrgð. Athyglisvert hefur t.d. verið að íslensk stjórnvöld hafa alltaf vísað í heimskreppuna þegar ábyrgð á bankahruninu hér heima ber á góma.

Hér á blogginu hafa menn ýmist litið til hrunadansaranna/útrásarvíkinganna eða stjórnvalda og fjármálaeftirlits/seðlabanka þegar bankahrunið er skoðað (nema náttúrlega HHG, sem kennir slæmum kapítalistum um allt saman). Ég hef t.d. tekið eftir því að hægri sinnaðir bloggarar eru gáttaðir á því að aðrir skuli líta til stjórnvalda um ábyrgð frekar en útrásravíkinganna en á sama tíma er t.d. Evu Hauksdóttur úthúðað fyrir að vilja beina athyglinni að baugsveldinu, sem margur sk. kristinn bloggarinn virðist vera farinn að líkja við Jesú Jósefsson sjálfan.

Ég fyrir mitt leyti ætla að leyfa mér að brydda upp á öðrum sökudólgi. Ég lít reyndar svo á að útrásarvíkingarnir hafi gert nákvæmlega það, sem búast má við af gráðugum kapítalistum í skjóli laga og reglugerða, bæði hér á landi og skv. EES samningnum (sem við þurfum lífsnauðsynlega að segja upp). Enn fremur tel ég ekki að það breyti miklu þó að seðlabankastjóri eða einstaka ráðherrar séu látnir fara. Það þýðir þó ekki að ég gráti það að þetta fólk sé sent heim til sín né heldur að ég styðji ekki baráttuna gegn baugsveldinu, bjöggunum o.s.frv.

Ég ætla sem sé að leyfa mér að stinga upp á þriðja, mögulega sökudólginum, nefnilega því auðvaldsskipulagi, sem við lifum og hrærumst í, kapítalismanum sjálfum. Þetta fyrirbæri tók við af lénsskipulaginu fyrr á öldum, oft með blóðugum byltingum og vissulega illskárra fyrir almenning en það sem á undan var. T.d. afnam kapítalisminn ánauð bænda og gerði þeim kleift að flytjast til hinna vaxandi iðnaðarborga og gerast þar iðnverkamenn á sultarlaunum með alveg jafn langan vinnutíma og forfeður þeirra, en á þessum uppvaxtarárum kapítalismans höfðu iðnverkamenn ekki öðlast neina stéttarvitund. Á þessum tíma voru engin stéttarfélög, engir lífeyrissjóðir, engar bætur af neinu tagi, ekkert félagslegt öryggisnet. Allt þetta kom miklu síðar og kostaði blóðuga baráttu verkafólks um allan hinn vestræna heim og skóp okkur það sem við köllum í dag í heimsku okkar eða hroka sjálfsögð mannréttindi.

Eftir að hafa arðrænt hver sem betur gat í sínu heimalandi skv. eigin löggjöfum (þingræðið er kapítalísk uppfinning til að tryggja að ríkið og ríkisstjórnin sé kapitalistanna - á þessum tímum höfðu eingöngu kapítalistarnir sjálfir og örfáir ríkir uppgjafa lénsherrar atkvæðisrétt og kjörgengi) fóru kapítalistarnir að líta til annarra landa, sér í lagi þeirra, sem landafundirnir miklu höfðu leitt í ljós og lágu nú óbætt hjá garði. Heimsvaldastefnan ruddi sér til rúms, þetta furðufyrirbæri, sem oft hefur skipt um andlit út á við en er enn við lýði (heitir útrás í dag) og Lenín kallaði "æðsta stig auðvaldsins". Eftir að hin evrópsku stórveldi höfðu skipt Afríku og stórum hluta Asíu á milli sín og meira var eiginlega ekki til skiptanna endaði þetta fyrsta tímabil heimsvaldastefnunnar í því uppskiptastríði, sem við köllum heimsstyrjöldina fyrri, sem beinlínis útrýmdi gömlum nýlenduveldum og breytti rótgrónum landamærum í Evrópu svo kortið varð vart þekkjanlegt.

Að þessu tímabili loknu var Evrópa í sárum og nýtt stjórnmálafyrirbæri hafði litið dagsins ljós í Rússlandi. 1917 handtóku bolsévíkar ríkisstjórn þjóðbyltingarmannsins Kerenskís og fyrsta sósíalíska ríkið leit dagsins ljós. Það var ekki nóg með að heimsvaldastefnan hafði beðið sitt fyrsta skipbrot, heldur var hér verið að reyna kenningar, sem Karl Marx og Friðrik Engels höfðu sett fram á 19. öld og gengu vægast sagt í berhögg við hin kapítalísku gildi. Svo fór að örla á kreppu í öllum hinum kapítalíska heimi, þeirri stærstu, sem peningastefnan hafði þekkt hingað til. Kapítalistarnir urðu skíthræddir og leituðu skjóls í því óhugnanlegasta fyrirbæri, sem þeir sjálfir þó skópu: fasismanum.

Fasisminn kom fram um alla Evrópu (þó að hann yrði þekktari í ákveðnum löndum þar sem hann náði yfirhöndinni). Má þar nefna Finnland, Eystrasaltsríkin, lönd á Balkanskaga og víðar. Þessi lönd voru talin útverðir kapítalismans gegn hinu sósíalíska ríki í austri og var lítið til sparað að efla herinn í þessum löndum. Í öðrum löndum báru hínar fasísku stefnur sigur úr býtum og var sums staðar beinlínis hjálpað til valda í blóðugum borgarastyrjöldum eins og á Spáni. Í öllum tilfellum sáu kapítalistar Evrópu og Bandaríkjanna fasismann sem bjargvætt stefnunnar og skipulagsins og um leið sem þann brimbrjót, er mala skyldi sósíalismann i austri mélinu smærra. Minna máli skipti þó að þau fáu borgaralegu réttindi, sem verkalýðurinn hafði þó áunnið sér væri afnuminn á einu bretti og þjóðir, þjóðabrot og ýmsir hópar samfélagsins nú kúgaðir svo sem aldrei hafði sést áður og jafnvel skipulega útrýmt. Það var ekki fyrr en nasistar fóru að ráðast á önnur kapítalísk lönd í Evrópu að ég tali nú ekki um stóru kapítalísku löndin eins og Frakkland og Bretland, að menn sáu að þeir höfðu alið nöðru sér við brjóst, sem eitthvað varð að gera við. Þegar Hitler loksins sneri sér í austur hafði hið nýja andlit heimsvaldastefnunnar leitt til sögulegs viðburðar, þ.e. bandalags Sovétríkjanna og bandamanna gegn afkvæmi þeirra síðarnefndu. Seinni heimsstyrjöldin var að sönnu ekki uppskiptastríð líkt og hin fyrri þó að hún bæri með sér ákveðið uppgjör í Evrópu. Hún markaði heldur ekki endalok fasismans sem öfgahægrisinnaðrar, kapítalískrar stjórnmálastefnu, þó að margir, t.d. HHG, vilji halda slíku fram. En hún skildi Evrópu eftir í slíkum sárum að þungamiðja heimsvaldastefnunnar færðist þaðan til Bandarikjanna. (Það má benda á að í Rússlandi kallar eldra fólk, sem man heimsstyrjöldina, hana "stóra stríðið").

Að lokinni seinni heimsstyrjöldinni tók kalda stríðið við að undirlagi Breta og Bandaríkjamanna með hernaðarbandalögum, vígbúnaðarkapphlaupum og áframhaldandi nýlendukúgun í anda gömlu heimsvaldastefnunnar - og þó. Kanar lærðu dálítið af sögu Evrópu. Í stað þess að vera sjálfir nýlenduherrar fóru þeir einfaldlega inn í löndin með hernaði og komu á fót þeim þóknanlegum leppstjórnum eða gerðu veikburða ríkisstjórnir nýfrjálsra ríkja svo gersamlega fjárhagslega háðar sér að þær gátu sig hvergi hrært án þeirra samþykkis og velþóknunar. Svo rammt kvað að þessu að ekki er laust við að eimi eftir af þessu enn mörgum árum eftir svokölluð endalok kalda stríðsins, sbr. Írak og Afganistan. Það verður að segjast eins og er að Sovétríkin sálugu villtust rækilega af og sögðu beinlínis skilið við leið sósíalismans í baráttunni um heimsyfirráðin á tímum kalda striðsins og tileinkuðu sér grimmt aðferðir þeirrar stefnu, sem stofnandi þeirra kallaði á sínum tíma "æðsta stig auðvaldsins".

Að kalda stríðinu loknu (ef því er þá lokið - svo virðist nú ekki alltaf vera því að amk áróðursstríðið virðist oft í fullum gangi) tók við hægt og sígandi 4. stig heimsvaldastefnunnar, sem er vonandi að líða undir lok um þessar mundir með nýjustu útgáfu heimskreppunnar í boði kapítalismans. Þetta stig hafa kapítalistarnir sjálfir valið að kalla nýfrjálshyggju, en hún felst m.a. í eftirfarandi:
1. Öll ríkisfyrirtæki skulu seld - ríkið má/á ekki að taka þátt í atvinnurekstri. Þetta gildir jafnt um öryggisnet almennings eins og síma og útvarp sem og fjármálastofnanir.
2. Öll félagsleg þjónusta skal einkavædd. Þetta gildir jafnt um heilbrigðis-, mennta- og samgönguþjónustu.
3. Öll áunnin "sjálfsögð" mannréttindi, svo sem tryggingar, skulu afnumin í áföngum. Takið eftir að ég segi áföngum en það á að sjálfsögðu einnig við um liði 1 og 2 að ofan. Með því að gera þetta hææægt er ekki eins mikil hætta á að almenningur, sem er á plasti, rísi upp á afturlappirnar. Það sem fasisminn gerði strax gerir nýfrjálshyggjan smám saman.
4. Kapítalisminn - auðmagnið skal hnattvætt. Til þess að svo megi verða þarf yfirþjóðlegar valdastofnanir, sem hafa meiri völd en einstaka þjóðir. Stofnuð skulu þjóðabandalög til að tryggja að svo verði, svo sem ESB.
5. Á Íslandi skal kalla hnattvæðinguna útrás. Engin lög né reglur má setja, sem gætu hindrað útrásarvíkinga, enda þjóðin á klafa EES samningsins.
6. Ef bólan brestur skal gera allt, sem í valdi ríkisstjórnar kapítalistanna stendur til að hindra rannsókn á hruninu og til að útrásarvíkingarnir sleppi með hámarksgróða út úr öllu saman.

Þannig mætti lengi telja. Ef heimskreppan núverandi boðar endalok nýfrjálshyggjunnar táknar það ekki sjálfkrafa endalok heimsvaldastefnunar og þaðan af síður kapítalismans. Látið ykkur ekki detta eitt augnablik í hug að kapítalistarnir né ríkisstjórnir eða peningastjórnir þeirra muni læra neitt af reynslunni. Sagan sýnir einmitt að það hafa þeir aldrei gert. Það mun koma kreppa eftir þessa kreppu - nema ef við breytum algerlega um þjóðskipulag. Hinn sanni sökudólgur er kapítalisminn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þú ert snillingur. Vel skrifað.

Má ég nota þetta með þínu nafni á bloggsíðunni minni ?

Getur þú sagt mér nánari skilgrieningu á því hvað kapitalismi er ?

Eg er svo námsfús þessa daganna og ég er að reyna að finna enn nánari skilgreiningu.

Frjás markaður er ekki kapitalismi er það ?

Eins og ég skil þetta þá getur markaður ekki verið frjáls án siðferðis eða ríkstjórna til að grípa til laga eða refsinga við auðgunnarbrotum.

En peningamarkaðsstjórn eins og hún er hjá okkur er algjörlega djöfulleg og rán frá almenningi.

Viltu vera vinur minn. ? Bloggvinur það er að segja.

Lifi umbyltingin.

Vilhjálmur Árnason, 26.12.2008 kl. 00:27

2 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Sæll Vilhjálmur og þakka þér góð orð. Skilgreiningar á kapítalisma (auðhyggju) eru mýmargar og sitt sýnist hverjum eftir sjónarhorninu. Mín skilgreingreining fer ansi nærri skilgreiningu Marx á sínum tíma ásamt þeim viðbótum, sem kapítalisminn hefur sjálfur látið okkur í té frá næst síðustu öld. En það sem er að koma í ljós enn einu sinni út um allan hinn kapítalíska heim er einmitt afleiðing af óheftum og frjálsum kapítalisma með svokölluðum frjálsum markaði og ríkisstjórnum, sem eru ríkisstjórnir auðmagnsins sjálfs en ekki ríkisstjórnir almennings. Þannig er frjáls markaður að mínu viti einmitt hinn óhefti kapítalismi með öllu sínu illgresi, þmt ríkisstjórnum, sem styðja hinn óhefta markað og grípa EKKI inn í, heldur þvert á móti.

Áður en ég samþykki þig sem bloggvin vil ég benda þér á að við höfum ekki sömu lífssýn, t.d. í trúmálum. Ef það pirrar þig ekki og við getum umgengist hvorn annan án þess að ætla að breyta lífssýn hvors annars er bloggvinátta mín til reiðu.

Kv. Björgvin

Björgvin R. Leifsson, 26.12.2008 kl. 01:25

3 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

PS Vilhjálmur, ég gleymdi að auðvitað máttu vitna í orð mín í pistlinum hér að ofan.

Björgvin R. Leifsson, 26.12.2008 kl. 01:26

4 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Ég á engann vin sem hefur sömu lífsýn og ég he he he.

og ég vill ekki breyta þinni.

Díll.

Vilhjálmur Árnason, 26.12.2008 kl. 01:56

5 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þá má eiginlega segja að frjáls markaður án raunverulega lýðræðislega kosinnar ríkisstjórnar til þess að stýra honum, sé kapitalismi farinn út í nýfrjálshyggju..og svo seinna fasisma.

Eða hvað ?

En hefurðu spáð í því sem á sér stað í flotgengisstýringu.

Það er enn ein útgáfan af ráni í gegnum hagstjór með hagsmunaívafi.

Það er því mín sýn á þetta núna að við verðum að breita kosningakerfinu og flokkakerfinu til að fá lýðræðiskosna fulltrúa sem hugsa um hag almennings.

Og svo verðum við að sturta niður flotgengi og verðbólgna krónu og taka upp 100 % gulltryggða mint þar sem stjórnmálamenn geta ekki tekið ákvarðannir sem rýra kaupmátt launamanns.

Með þessu kerfi mundi stýrihlutverk seðlabanka falla niður og hann væri í geymslu hlutverki.

Þetta finnst mér að ætti að vera baráttumál okkar allra.

hvað finnst þér félagi Marx he he.

Vilhjálmur Árnason, 26.12.2008 kl. 02:17

6 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Já þú hefðir kanski gaman að grein eftir mig sem heitir Drekanum Banað.í desember færslum. Eða á vald.org

Mjög antí kapitalísk en með smá trúarlegu ívafi.

Vilhjálmur Árnason, 26.12.2008 kl. 02:31

7 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Sæll Vilhjálmur. Þú spyrð mig um hagfræðileg málefni, sem ég hef ekki mikið vit á. Ég er hins vegar sammála um að hætta með flotkrónu, sem eingöngu ræðst af markaði. Margir svokallaðir hagfræðingar (sem ég treysti engan veginn í dag eftir að þeir hafa talað út og suður frá því fyrir kreppu) hafa logið að okkur að við getum ekki verið með sjálfstæða mynt þar sem hagkerfið sé svo lítið og að íslenska krónan sé minnsta myntkerfi heimsins. Það er einfaldlega ekki rétt og dugar að nefna Barbados, þar sem myntin, Barbados dollar, er fasttengd við US dollar á genginu 1,98. Svínvirkar.

Varðandi hitt atriðið að breyta kosninga- og flokkakerfinu held ég að dugi ekki innan ramma hins kapítalíska kerfis vegna þess að ég tel ríkið alltaf vera tæki ráðandi stétta þjóðfélagsins hverju sinni.

Björgvin R. Leifsson, 26.12.2008 kl. 03:47

8 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Hvernig sérðu þá nýja þjóskipulagið fyrir þér ?

Vilhjálmur Árnason, 26.12.2008 kl. 03:59

9 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Tja, ætli það sé nú ekki nokkuð augljóst ;-)

Hitt er svo annanð mál hvort þjóðin sé tilbúin fyrir svo róttækar breytingar.

Björgvin R. Leifsson, 26.12.2008 kl. 13:13

10 identicon

Kapítalismi snýst um það að peningar séu hin endanlega réttlæting á öllu sem gert er. Dæmi: þegar menn standa frammi fyrir að framkvæma eitthvað sem hefur mikil og óafturkræf tjón á náttúrunni í för með sér, þá er það réttlætt með því að það fáist peningar fyrir það. Kapítalisminn hefur hins vegar ekki meiri trú á sjálfum sér en að hann þarf að beita ýmsum brögðum málstað sínum til framdráttar, svo sem: "landshlutinn leggst í eyði ef þetta verður ekki gert" eða hið mikið notaða: "hvað á að gera í staðinn?" slagorðið. Sorglegasta dæmið var líklega hið ömurlega kaldastríð, sem var rekið áfram af þeim sem græddu á því (kapítalistunum) og okkur hreinlega hótað heimsendi ef við styddum ekki þessa hernaðarhyggju, eins og til dæmis NATO sem því miður er ennþá til. Þrátt fyrir að engar sannanir séu til fyrir því að Íslandi og vestur Evrópu hafi, frá seinni heimsstyrjöld, verið ógnað af erlendu herveldi.

Frjálshyggjan er einfaldlega Frumskógarlögmál. Frjálshyggjan byggir á því að þeir sem betur mega sín eiga að fá meira í sinn hlut en þeir sem minna mega sín. Það að bíða lægri hlut á svo að vera hvatning og örvun fyrir þá sem minna mega sín að reyna að ná lengra þar til þeir standa jafnfætis hinum. Það segja frjálshyggjumenn að sé besti hvatinn til framfara. Þetta virkar vel úti í náttúrunni, meðal villtra dýra þar sem hver einstaklingur hefur aðeins eigin andlegan og líkamlegan styrk til að nota. Meðal tæknivæddra manna gengur þetta hins vegar ekki upp. Ástandið í Simbabwe, Burma, Norður Kóreu og fleiri slíkum löndum er lýsandi dæmi um hvernig frjálshyggjan virkar í raun. Sem sagt að sá sem kemst yfir mest af vopnum og getur safnað í kring um sig mestu af hlíðnum og auðtrúa stuðningsmönnum, nær völdum og lagar allt stjórnarfar að eigin geðþótta. Ver það með vopnavaldi. Hermennirnir styðja sinn einræðisherra af því að þeir fá sneið af kökunni. Þannig verður frjálshyggjan ávísun á hnignun. Á Íslandi eru það þeir sem gátu tekið mestu lánin, (frelsi til athafna) sem hafa náð lengst. (er það dæmi um hæfni og styrk?) komið peningunum undan og sjálfum sér og skilið okkur hina eftir í skuldunum. Það er eitt dæmi um frjálshyggju.

Húnbogi Valsson (IP-tala skráð) 26.12.2008 kl. 18:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband