Heimasíða mín

Hef opnað heimasíðuna brl.is

Slóð: http://brl.is

Aðrar síður:

http://www.facebook.com/pages/Bjorgvin-Runar-Leifsson-a-stjornlagabing/101713439898084

http://www.facebook.com/group.php?gid=108112279251916


Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Þá er það hið eldfima mál. Ég ætla að byrja á að vitna í 72. grein:

72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.

Svo mörg voru þau orð. Hugleiðum aðeins hvernig þetta ákvæði ver annars vegar íslenskar náttúruauðlindir gegn ásælni erlendra auðhringa og hins vegar skuldsett heimili í landinu fyrir ásælni kröfuhafa og fjármagnseigenda. Um leið getum við rifjað upp hótun útgerðarmanna frá því í vor að sigla flotanum í land ef ríkisstjórnin myndi hrófla við kvótakerfinu, hvernig verðsamkeppni olíufélaganna reyndist sýndarleikur einn og hvernig skúffufyrirtæki í Svíþjóð nær undir sig íslensku orkufyrirtæki með nýtingarrétti á íslenskri orku svo kynslóðum skiptir. Á sama tíma virðast íslenskir útrásarbófar fá að leika lausum hala og halda áfram að braska með fyrirtæki, sem þeir voru löngu búnir að blóðmjólka þrátt fyrir loforð um nýtt Ísland og nýja tíma. Nei, það eina sem verið er að endurreisa er kerfið, sem féll. Kerfi hins heilaga einkaeignarréttar á framleiðslutækjum þjóðarinnar, kerfi kapítalismans.

Við sjáum á Magma málinu og hugmyndum manna um að Alcoa fái sjálft að virkja og selja sjálfu sér rafmagn norður á Húsavík að viðbótarákvæðið um takmörkun á eignarrétti erlendra auðhringa í íslenskum auðlindum virkar engan veginn. Varðandi fyrri hluta 72. greinar er morgunljóst að ákvæðið ver engan veginn persónulega einkaeign almennings, svo sem þinglýst þak yfir höfuðið en virkar fullkomlega þegar útgerðaraðallinn hótar þjóðinni að sigla flotanum í land.

Segja má að grundvallarþarfir mannsins séu þrjár:
1. Að hafa þak yfir höfuðið
2. Að hafa í sig
3. Að hafa á sig.

Allar aðrar þarfir eru í raun aukaþarfir og verða hjóm eitt ef þessum þremur grundvallarþörfum er ekki fullnægt. Öll mannréttindaákvæði verða að taka mið af þessum þremur grunnþörfum því að meðan þær eru ófullnægðar að hluta eða öllu leyti eru viðbótarréttindi harla lítils virði. Eins og við öll vitum fást mannréttindi ekki nema fyrir baráttu og í hvert sinn sem gefið er eftir reyna ráðandi stéttir, oftast með ríkisvaldið í broddi fylkingar, að afnema eða amk skerða áunnin réttindi. Þetta gildir líka um grunnþarfirnar þrjár og kemur berlega í ljós núna í kreppunni.

Hér á Íslandi hefur lengi tíðkast sú hefð að í stað þess að hafa aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði er öllum att út á einkahúsnæðisforaðið. Takið eftir að ég talaði um að "hafa", ekki að "eiga" þak yfir höfuðið hér að ofan. Þegar venjulegt fólk "kaupir" íbúð eða hús er það yfirleitt að skuldbinda sig fyrir lífstíð eins og lánamarkaðurinn og lánakjörin eru í dag. Ég hef alltaf sagt að ég eigi húsið mitt að nafninu til en hafi það í raun að láni frá bankanum. Afleiðingarnar sjáum við allt í kringum okkur og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ver skuldirnar fram í rauðan dauðann en svokölluð "eign" hinna þinglýstu "eigenda" hefur ekkert vægi.

Ég talaði hér að ofan um hvernig stjórnarskráin ver í raun einkaeign á framleiðslutækjum þjóðarinnar og nota hugtakið "framleiðslutæki" í nokkuð víðri merkingu, sbr. olíufélögin. Mér finnst siðlaust að t.d. útgerðarmenn geti ógnað fæðuöryggi þjóðarinnar með því að hóta að sigla flotanum í land. Takið enn fremur eftir að ráðamenn þjóðarinnar voru í raun ráðalausir gagnvart þessari hótun þrátt fyrir 72. greinina.

Ég mun, verði ég kosinn á stjórnlagaþingið, leggja til breytingar á þessu ákvæði þannig að þjóðin geti gert ónýtt/vannýtt framleiðslutæki upptæk án nokkurra bóta þegar um þjóðarhag er að tefla. Þar sem ólíklegt verður að teljast að slík breyting fáist samþykkt í kapítalísku þjóðskipulegi mun ég til vara leggja til að 72. grein verði breytt þannig að eignaupptaka á heimilum manna teljist stjórnarskrárbrot.


Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ég ætla að byrja á 65. grein:

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Næst eru það greinarnar um þjóðkirkjuna og trúfélög almennt en þær eru í sérstökum kafla:

VI.
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
63. gr. Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.
64. gr. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.
Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

Að lokum 79. grein:
79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Mér finnst 62. greinin beinlínis stangast á við ákvæðið um trúfrelsið í 65. grein. Enn fremur eru tvær síðustu málsgreinar 64. greinar athugaverðar:
Í fyrsta lagi er nýfætt barn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður, sem er klárt mannréttindabrot í mínum huga m.a. á rétti móðurinnar að láta barnið vera utan trúfélaga. Það að barn sé ekki skírt og fermt leiðir EKKI sjálfkrafa til þess að einstaklingurinn sé skráður utan trúfélaga.
Í öðru lagi er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að eintaklingi utan trúfélaga sé gert að greiða sérstakt gjald til einhverrar annarrar stofnunar, félgs, fyrirtækis eða hvers sem vera skal. Það að "breyta má þessu með lögum" breytir engu um það að þarna er stjórnarskráin beinlínis í ósamræmi við sjálfa sig.

Ég vil líka benda á mál það, sem nú er komið upp í Reykjavík um hvers konar skírskotun til trúarbragða í leik- og grunnskólum borgarinnar. Ef það eru borgaraleg réttindi að mega hafa þá trú, sem maður vill, má þá ekki líta á það sem ákveðinn missi borgaralegra réttinda ef kristnum foreldrum barna eru meinað trúarlegt uppeldi barnanna í skólunum? Ég er ekki að segja að ég sé sammála þessari röksemdafærslu en ég get auðveldlega séð þetta sem rök þeirra, sem vilja halda allri kristilegri skírskotun, sem nú tíðkast, inni í skólunum.

Í mínum huga er þetta eins konar "allt eða ekkert" dæmi. Ef t.d. á að banna alla kristilega skírskotun á litlu jólunum, þá hlýtur að verða að banna líka alla skírskotun til ásatrúar þó að jólin séu vissulega mjög mikilvægur tími í þeim trúarbrögðu líka - og raunar mörgum öðrum trúarbrögðum. Við getum líka skoðað þetta í ljósi umræðu erlendis um að banna t.d. ýmiss konar klæðaburð múslima en þá verður væntanlega að banna líka öll önnur trúartákn. Ef við gerum það erum við hins vegar komin út á þann hála ís að taka þau borgaralegu réttindi af fólki að mega trúa hverju sem það vill og sýna það ef því þóknast svo. Ég er alfarið á móti því að banna fólki að opinbera trú sína ef það svo kýs nema viðkomandi trúartákn sé sannarlega um leið tákn kúgunar af einhverjum toga.

Ég álít að með því að skilja á milli ríkis og kirkju séum við komin vel á veg að viðurkenna þau vandamál, sem ég hef reifað og ráða bót á þeim. Athugið vel á ég er EKKI að tala um að leggja þjóðkirkjuna niður, sem er útúrsnúningur nokkurra kirkjunna manna á aðskilnaðinum. Meðan þorri þjóðarinnar vill vera í ákveðinni kirkjudeild hlýtur sú kirkjudeild að vera þjóðkirkja þó að hún sé aðskilin frá ríkinu.
Það er hróplegt misrétti þegnanna að ríkið skuli styðja og vernda einn trúarhóp framar öðrum.


Um þjóðaratkvæðagreiðslur

Í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er í rauninni ekki mikið fjallað um þjóðaratkvæðagreiðslur. Þær ber þó á góma í eftirtöldum greinum:

11. gr. Forseti lýðveldisins er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. Svo er og um þá, er störfum hans gegna.
Forseti verður ekki sóttur til refsingar, nema með samþykki Alþingis.
Forseti verður leystur frá embætti, áður en kjörtíma hans er lokið, ef það er samþykkt með meiri hluta atkvæða við þjóðaratkvæðagreiðslu, sem til er stofnað að kröfu Alþingis, enda hafi hún hlotið fylgi 3/4 hluta þingmanna. Þjóðaratkvæðagreiðslan skal þá fara fram innan tveggja mánaða, frá því að krafan um hana var samþykkt á Alþingi, og gegnir forseti eigi störfum, frá því að Alþingi gerir samþykkt sína, þar til er úrslit þjóðaratkvæðagreiðslunnar eru kunn.
Nú hlýtur krafa Alþingis eigi samþykki við þjóðaratkvæðagreiðsluna, og skal þá Alþingi þegar í stað rofið og efnt til nýrra kosninga.

26. gr. Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt, og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu.

79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki [Alþingi] ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Hér er um að ræða 3 greinar. Í 11. grein er fjallað um þjóðaratkvæði um vantrausttillögu Alþingis á forseta Íslands. Á það hefur aldrei reynt.
Í 26. grein er ákvæðið um neitunarvald forsetans og hvernig höfundar stjórnarskrárinnar ætluðu þjóðinni að staðfesta eða synja þeirri neitun. Á þetta hefur einu sinni reynt með þeim hætti (Icesave lögin) en þegar forseti synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar árið 2004 komu stjórnvöld sér undan skyldum sínum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu með því að draga lagafrumvarpið til baka þrátt fyrir að 26. greinin taki af öll tvímæli um að leggja skuli "frumvarpið undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu svo fljótt sem auðið er". Hér var því um augljóst stjórnarskrárbrot að ræða. Ekki get ég séð að hægt sé að skýla sér á bak við óljós fyrirmæli 26. greinar. Hins vegar ætti löggjafinn að vera löngu búinn að setja lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi, byggð á grunnlögum þjóðarinnar í stjórnarskránni.

Fyrri hluti 79. greinar er líklega sá klúðurslegasti og gerir það að verkum að erfitt hefur verið að ná fram miklum breytingum á stjórnarskránni og í rauninni má deila um hvort farið hafi verið eftir þessu ákvæði í hvívetna þegar stjórnarskrárbreytingar hafa verið samþykktar. Þá er fráleitt að Alþingi hafi síðasta orðið en ekki þjóðin, sem þó er sá aðili, sem gerir stjórnarskrársáttmálann við sjálfa sig og felur svo Alþingi að setja landinu lög til samræmis við sáttmálann.

Það sem ég vil gera er eftirfarandi:
1. Allar breytingar á stjórnarskránni fari í dóm þjóðarinnar - þjóðaratkvæði - en ekki dóm Alþingis.
2. Allar synjanir forseta Íslands á lagafrumvörpum frá Alþingi fari í þjóðaratkvæði.
3. Allir milliríkjasamningar og samningar, sem kunna að fela í sér valdaafsal til alþjóðlegra samtaka, ríkjasambanda eða hernaðarbandalaga, hvort sem afsalið er staðbundið eða tímabundið eður ei, fari í þjóðaratkvæði.
4. Ákveðinn hluti alþingismanna eða kosningabærra manna í landinu geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um mál, sem varða þjóðarhag, miklar deilur standa um o.s.frv.
5. Að hver sá, sem reynir að sniðganga stjórnarskrána hvað ofangreint varðar verði látinn sæta refsingu.
6. Að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslna verði bindandi fyrir ríkisstjórn og Alþingi.


Framboð til stjórnlagaþings

Hér með tilkynnist að ég hef skilað inn gögnum vegna framboðs til stjórnlagaþings. Á stjórnlagaþingi vil ég einkum beita mér fyrir eftirfarandi:

Að einfalda framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna á Íslandi og setja inn ákvæði um skyldu stjórnvalda að fara skilyrðislaust eftir niðurstöðu þeirra.
Að ákvæði verði sett inn í stjórnarskrá um aðskilnað ríkis og kirkju.
Að eignarréttarákvæðið verði endurskoðað með það að markmiði að auðvelda þjóðinni að gera ónýtt/vannýtt framleiðslutæki upptæk án þess að sérstakar greiðslur komi fyrir.
Að skerpt verði á frelsisákvæðum stjórnarskrárinnar.
Að valdsvið forseta Íslands verði skilgreint með nákæmum hætti.
Að stjórnvöldum verði bannað að framselja vald til erlendra aðila hvers konar.
Að full yfirráð þjóðarinnar yfir eigin auðlindum verði tryggð.

Bakgrunnur minn:
Fjölskyldumaður, á 3 börn og 6 barnabörn.

Nám og störf:
BS próf í líffræði og MS próf í sjávarlíffræði frá Háskóla Íslands ásamt gráðu í uppeldis- og kennslufræði frá sama skóla.
Kennslu- og stjórnunarstörf við Fjölbrautaskólann á Akranesi og Framhaldsskólann á Húsavík í 30 ár samtals.
Rannsóknastörf fyrir Náttúrustofu Norðausturlands.

Stjórnmálaskoðanir og starf í stjórnmálahreyfingum:
Kommúnisti, skráður í Rauðan vettvang. Stofnfélagi í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði en sagði mig úr flokknum 13. mars sl. þegar sett voru lög á verkfall flugvirkja.

Síða á Facebook: http://www.facebook.com/group.php?gid=108112279251916


Landsfundur bankahrunsflokksins

Á landsfundi er líf og fjör,
liðinn er nú vetur.
Allir fá þar endurkjör
og öllum líður betur.

Á því hafð'eg grænan grun
að gengi beint að sæti.
Bjarni sjálfur bankahrun
blés af lítillæti.

Pétur Kaupþings Blöndal bur,
bankahruns í flokki
vill nú formað verða -ur,
víst mun Bjarn'í sjokki.

Spillingin er íhalds ill
og öllu þeir nú flíka.
Fé án hirðis fegið vill
í formannsstólinn líka.

Ætl'eir kannski endi með
upp að vekja drauginn,
sem á mogga situr veð
að safn'í skítahauginn.


Í tilefni þess að bloggarar eru reknir af blogginu fyrir óþægð

Ef menn vilja ybba gogg
ættu þeir að skilja
að Davíð mælir moggablogg
meður sínum vilja.

Úrsögn úr VG

Ég hef ekki bloggað um alllangt skeið þar sem þetta er of mikil tímasóun að mínu mati. Ástæða þess að ég sendi þetta frá mér er að hin svo kallaða vinstri stjórn skuli voga sér að setja lög á verkfall flugvirkja.

Fyrir um 11 dögum aflýstu flugumferðarstjórar verkfallsaðgerðum vegna hótana þessarar sömu ríkisstjórnar um að setja lög á aðgerðirnar. Laugardaginn 13. mars sagði ég mig úr Vinstrihreyfingunni - grænu framboði með þessum orðum:

"Hér með segi ég mig úr Vinsrihreyfingunni - grænu framboði.

Þetta er ekki lengur spurning um málamiðlanir. Ég get ekki verið í, starfað með, né stutt flokk, sem notar aðferðir fasista við lausn kjaradeilu. Spurningin snýst ekki um hvað viðkomandi stétt hefur í laun miðað við aðrar stéttir né heldur hvort það hafi verið taktískt rétt hjá stéttinni að krefjast kjarabóta við núverandi aðstæður. Það er grundvallaratriði að vinstri stjórn og vinstri flokkar láta verkfallsréttinn alveg í friði. Ef ráðist er á eina stétt er þetta eingöngu tímaspursmál hvenær ráðist verður á næstu - og síðan hvort önnur mannréttindi, svo sem tjáningar- og skoðanafrelsi, verða fótum troðin.

Ég þakka ykkur fyrir samstarfið og harma að flokkurinn, sem ég átti þátt í að stofna, skuli hafa leiðst á glapstigu þeirra afla, sem aldrei bregðast íhaldinu og ráðandi stéttum þegar á bjátar."

Ég leyfi mér að benda á að Hitler, Mussolini og Franco höfðu einmitt almanna- og þjóðarhagsmuni í húfi þegar þeir settu lög, sem bönnu m.a. verkföll, uppsagnir launafólks og fleiri þess háttar mannréttindi, sem alþýðu þess tíma þóttu svo mikilvæg að hún var jafnvel fús til að deyja fyrir þau frekar en að gefa þau eftir. Þessi mannréttindi hafa hins vegar alltaf verið íhaldinu, auðvaldinu og ráðandi stéttum mikill þyrnir í augum. Nú hefur afturhaldi Íslands borist nýr liðsauki úr þeirri átt er síst skyldi. Og Ögmundur þegir þunnu hljóði.

Á Alþingi er ys og þys,
illa lærð hver baga.
Hræsnisdruslur helvítis
hanga þar á snaga.


mbl.is Lög á verkfall flugvirkja
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þakkir til þeirra íbúa Norðurþings, sem studdu okkur

Sem félagi í Húsavíkurdeild Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs vil ég þakka öllum þeim íbúum Norðurþings, sem greiddu flokknum atkvæði sitt í Alþingiskosningunum 25. apríl sl. Ég lofa fyrir mitt leyti að ég mun ekki láta mitt eftir liggja í baráttunni gegn framlengingu nauðasamnings núverandi meirihluta í sveitarstjórn við Alcoa.
Við verðum að fara að nýta þó ekki væri nema hluta af orkunni á Þeistareykjum til atvinnuuppbyggingar í sveitarfélaginu. Við höfum ekki efni á að bíða í 10-20 ár í viðbót.

Baráttukveðjur 1. maí

Ég fór á 1. maí fund Stefnu, félags vinstri manna, á Akureyri í morgun. Hörkugóður fundur. Einar Már Guðmundsson flutti þrumandi ræðu um kreppuna, orsakir hennar og afleiðingar og hvað ber að gera við útrásarvíkingana: Taka af þeim peningana, sem þeir rændu af þjóðinni. Þá var ljóðalestur og fjöldasöngur og Tjarnardúettinn Kristján og Þórarinn Hjartarsynir fluttu nokkur baráttulög.
Eitthvað annað en á Húsavík þar sem formaður stéttarfélagsins sá ástæðu til að láta hafa eftir sér í fjölmiðlum að loknum kosningum að það væri þungt hljóðið í Húsvíkingum nú þegar loksins hillir undir vinstri stjórn í landinu að lokinni 18 ára samfelldri frjálshyggjustjórn. Ég sé nú ekki að hann þurfi að hafa miklar áhyggjur því að skv. Skarpi ætlar meirihluti sveitarstjórnar Norðurþings að halda sveitarfélaginu áfram í gíslingu Alcoa með framlengingu nauðasamningsins í haust.

Ísland úr NATO
Ísland utan ESB


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband