Aðskilnaður ríkis og kirkju

Ég ætla að byrja á 65. grein:

65. gr. Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.
Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

Næst eru það greinarnar um þjóðkirkjuna og trúfélög almennt en þær eru í sérstökum kafla:

VI.
62. gr. Hin evangeliska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.
Breyta má þessu með lögum.
63. gr. Allir eiga rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu.
64. gr. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu.
Öllum er frjálst að standa utan trúfélaga. Enginn er skyldur til að inna af hendi persónuleg gjöld til trúfélags sem hann á ekki aðild að.
Nú er maður utan trúfélaga og greiðir hann þá til Háskóla Íslands gjöld þau sem honum hefði ella borið að greiða til trúfélags síns. Breyta má þessu með lögum.

Að lokum 79. grein:
79. gr. Tillögur, hvort sem eru til breytinga eða viðauka á stjórnarskrá þessari, má bera upp bæði á reglulegu Alþingi og auka-Alþingi. Nái tillagan samþykki skal rjúfa Alþingi þá þegar og stofna til almennra kosninga af nýju. Samþykki Alþingi ályktunina óbreytta, skal hún staðfest af forseta lýðveldisins, og er hún þá gild stjórnskipunarlög.
Nú samþykkir Alþingi breytingu á kirkjuskipun ríkisins samkvæmt 62. gr., og skal þá leggja það mál undir atkvæði allra kosningarbærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar, og skal atkvæðagreiðslan vera leynileg.

Mér finnst 62. greinin beinlínis stangast á við ákvæðið um trúfrelsið í 65. grein. Enn fremur eru tvær síðustu málsgreinar 64. greinar athugaverðar:
Í fyrsta lagi er nýfætt barn sjálfkrafa skráð í trúfélag móður, sem er klárt mannréttindabrot í mínum huga m.a. á rétti móðurinnar að láta barnið vera utan trúfélaga. Það að barn sé ekki skírt og fermt leiðir EKKI sjálfkrafa til þess að einstaklingurinn sé skráður utan trúfélaga.
Í öðru lagi er það brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að eintaklingi utan trúfélaga sé gert að greiða sérstakt gjald til einhverrar annarrar stofnunar, félgs, fyrirtækis eða hvers sem vera skal. Það að "breyta má þessu með lögum" breytir engu um það að þarna er stjórnarskráin beinlínis í ósamræmi við sjálfa sig.

Ég vil líka benda á mál það, sem nú er komið upp í Reykjavík um hvers konar skírskotun til trúarbragða í leik- og grunnskólum borgarinnar. Ef það eru borgaraleg réttindi að mega hafa þá trú, sem maður vill, má þá ekki líta á það sem ákveðinn missi borgaralegra réttinda ef kristnum foreldrum barna eru meinað trúarlegt uppeldi barnanna í skólunum? Ég er ekki að segja að ég sé sammála þessari röksemdafærslu en ég get auðveldlega séð þetta sem rök þeirra, sem vilja halda allri kristilegri skírskotun, sem nú tíðkast, inni í skólunum.

Í mínum huga er þetta eins konar "allt eða ekkert" dæmi. Ef t.d. á að banna alla kristilega skírskotun á litlu jólunum, þá hlýtur að verða að banna líka alla skírskotun til ásatrúar þó að jólin séu vissulega mjög mikilvægur tími í þeim trúarbrögðu líka - og raunar mörgum öðrum trúarbrögðum. Við getum líka skoðað þetta í ljósi umræðu erlendis um að banna t.d. ýmiss konar klæðaburð múslima en þá verður væntanlega að banna líka öll önnur trúartákn. Ef við gerum það erum við hins vegar komin út á þann hála ís að taka þau borgaralegu réttindi af fólki að mega trúa hverju sem það vill og sýna það ef því þóknast svo. Ég er alfarið á móti því að banna fólki að opinbera trú sína ef það svo kýs nema viðkomandi trúartákn sé sannarlega um leið tákn kúgunar af einhverjum toga.

Ég álít að með því að skilja á milli ríkis og kirkju séum við komin vel á veg að viðurkenna þau vandamál, sem ég hef reifað og ráða bót á þeim. Athugið vel á ég er EKKI að tala um að leggja þjóðkirkjuna niður, sem er útúrsnúningur nokkurra kirkjunna manna á aðskilnaðinum. Meðan þorri þjóðarinnar vill vera í ákveðinni kirkjudeild hlýtur sú kirkjudeild að vera þjóðkirkja þó að hún sé aðskilin frá ríkinu.
Það er hróplegt misrétti þegnanna að ríkið skuli styðja og vernda einn trúarhóp framar öðrum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband