Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar

Þá er það hið eldfima mál. Ég ætla að byrja á að vitna í 72. grein:

72. gr. Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.
Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.

Svo mörg voru þau orð. Hugleiðum aðeins hvernig þetta ákvæði ver annars vegar íslenskar náttúruauðlindir gegn ásælni erlendra auðhringa og hins vegar skuldsett heimili í landinu fyrir ásælni kröfuhafa og fjármagnseigenda. Um leið getum við rifjað upp hótun útgerðarmanna frá því í vor að sigla flotanum í land ef ríkisstjórnin myndi hrófla við kvótakerfinu, hvernig verðsamkeppni olíufélaganna reyndist sýndarleikur einn og hvernig skúffufyrirtæki í Svíþjóð nær undir sig íslensku orkufyrirtæki með nýtingarrétti á íslenskri orku svo kynslóðum skiptir. Á sama tíma virðast íslenskir útrásarbófar fá að leika lausum hala og halda áfram að braska með fyrirtæki, sem þeir voru löngu búnir að blóðmjólka þrátt fyrir loforð um nýtt Ísland og nýja tíma. Nei, það eina sem verið er að endurreisa er kerfið, sem féll. Kerfi hins heilaga einkaeignarréttar á framleiðslutækjum þjóðarinnar, kerfi kapítalismans.

Við sjáum á Magma málinu og hugmyndum manna um að Alcoa fái sjálft að virkja og selja sjálfu sér rafmagn norður á Húsavík að viðbótarákvæðið um takmörkun á eignarrétti erlendra auðhringa í íslenskum auðlindum virkar engan veginn. Varðandi fyrri hluta 72. greinar er morgunljóst að ákvæðið ver engan veginn persónulega einkaeign almennings, svo sem þinglýst þak yfir höfuðið en virkar fullkomlega þegar útgerðaraðallinn hótar þjóðinni að sigla flotanum í land.

Segja má að grundvallarþarfir mannsins séu þrjár:
1. Að hafa þak yfir höfuðið
2. Að hafa í sig
3. Að hafa á sig.

Allar aðrar þarfir eru í raun aukaþarfir og verða hjóm eitt ef þessum þremur grundvallarþörfum er ekki fullnægt. Öll mannréttindaákvæði verða að taka mið af þessum þremur grunnþörfum því að meðan þær eru ófullnægðar að hluta eða öllu leyti eru viðbótarréttindi harla lítils virði. Eins og við öll vitum fást mannréttindi ekki nema fyrir baráttu og í hvert sinn sem gefið er eftir reyna ráðandi stéttir, oftast með ríkisvaldið í broddi fylkingar, að afnema eða amk skerða áunnin réttindi. Þetta gildir líka um grunnþarfirnar þrjár og kemur berlega í ljós núna í kreppunni.

Hér á Íslandi hefur lengi tíðkast sú hefð að í stað þess að hafa aðgang að ódýru og öruggu leiguhúsnæði er öllum att út á einkahúsnæðisforaðið. Takið eftir að ég talaði um að "hafa", ekki að "eiga" þak yfir höfuðið hér að ofan. Þegar venjulegt fólk "kaupir" íbúð eða hús er það yfirleitt að skuldbinda sig fyrir lífstíð eins og lánamarkaðurinn og lánakjörin eru í dag. Ég hef alltaf sagt að ég eigi húsið mitt að nafninu til en hafi það í raun að láni frá bankanum. Afleiðingarnar sjáum við allt í kringum okkur og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar ver skuldirnar fram í rauðan dauðann en svokölluð "eign" hinna þinglýstu "eigenda" hefur ekkert vægi.

Ég talaði hér að ofan um hvernig stjórnarskráin ver í raun einkaeign á framleiðslutækjum þjóðarinnar og nota hugtakið "framleiðslutæki" í nokkuð víðri merkingu, sbr. olíufélögin. Mér finnst siðlaust að t.d. útgerðarmenn geti ógnað fæðuöryggi þjóðarinnar með því að hóta að sigla flotanum í land. Takið enn fremur eftir að ráðamenn þjóðarinnar voru í raun ráðalausir gagnvart þessari hótun þrátt fyrir 72. greinina.

Ég mun, verði ég kosinn á stjórnlagaþingið, leggja til breytingar á þessu ákvæði þannig að þjóðin geti gert ónýtt/vannýtt framleiðslutæki upptæk án nokkurra bóta þegar um þjóðarhag er að tefla. Þar sem ólíklegt verður að teljast að slík breyting fáist samþykkt í kapítalísku þjóðskipulegi mun ég til vara leggja til að 72. grein verði breytt þannig að eignaupptaka á heimilum manna teljist stjórnarskrárbrot.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband