Færsluflokkur: Spaugilegt

Í tilefni dagsins

Hér eru tvær vísur úr Ésúrímum eftir Tryggva Magnússon, sem teiknaði Spegilinn upp úr miðri síðustu öld, skráðar af Helga Hóseassyni eftir minni.

Öll veit borgin atburð þann,
eyðið sorg og voli.
Árla morguns upp reis hann
eins og Þorgeirsboli.

Skelkur flaug í sálarsvið,
sérhver taug var fangin.
Ekki er spaug að eiga við
allan draugaganginn.

Hér er dýrt kveðið með innrími en slíkar ferskeytlur eru oft nefndar hringhendur.


Framsóknarvinafélagið

Þessi bloggfærsla er ekki tengd við neina sérstaka frétt. Af nógu er svo sem að taka:

Bjarni og Guðni sögðu af sér.
Jónína Ben gengin inn með pólska stólpípu og alles.
Guðmundur góði Steingríms (ég hef áhyggjur AF þessu, ég verð að segja það) genginn inn.
Bjarni genginn út (fékk hann stólpípu eða vildi hann ekki fá stólpípu?).
Jón Sigurðsson, fyrrum formaður Halldórsarmsins mótmælir spillingu einhvers annars flokksarms.

Ég hef alveg misskilið tilgang þessa flokks. Tilgangur hans er náttúrlega ekki pólitík. Hann er skemmtikrafturinn á sviði stjórnmálaflokkanna.

Framsókn er nú í útrýmingarhættu. Það má ekki verða að þessi brandaraflokkur deyi út. Þess vegna lýsi ég yfir stofnun Framsóknarvinafélagsins. Tilgangur félagsins er að vekja athygli kjósenda á að Framsókn er eingöngu til þess að hlæja að. Það er ekki nauðsynlegt að hafa kosið eða ætla að kjósa Framsókn til að geta verið í Framsóknarvinafélaginu.


Þekkir einhver höfundinn?

Hér eru þrjár gamlar og góðar, sem ég lærði í eldgamla daga þegar ég var bæði ungur og fallegur. Er einhver þarna úti, sem veit hver samdi? Syngja má vísurnar t.d við lagið Hani, krummi, hundur, svín

Á Íslandi er enginn her,
allt í góðu standi.
Kommúnistar komu hér
og kýldu hann úr landi.

Morgunblaðið brunnið er,
að brunanum var gaman.
Kommúnistar komu hér
og kveiktu' í öllu saman.

Seðlabankahúsið hátt
held ég mætti sprengja.
Kommúnistar koma brátt
og kveikiþráðinn tengja.


Kreppan er spaugstofunni að kenna!

Það rifjaðist upp fyrir mér að í fyrsta spaugstofuþætti vetrarins - og þeim eina fyrir kreppu - báðu þeir spaugstofumenn okkur þjóðina um að sjá sér nú fyrir nógu efni úr að moða í vetur. Og viti menn ...

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband