Fundir og mannfagnaður?

Ég bý úti á landi og var ekki á mótmælafundinum í gær, 8. október. Ég sá heldur ekki fréttir af fundinum fyrr en seint um kvöldið á rúv.is, mbl.is og textavarpinu. Að ógleymdu moggablogginu. Menn hafa misjafnar skoðanir á fundinum, eggjakasti og fánahyllingu eins og gengur en rauði þráðurinn virðist mér þó vera hneykslun á framferði eggjakastara, lögreglu og fjölmiðla. Varðandi eggjakastara, þá er ekkert skrýtið að einhverjir sjái sér slíkan leik á borði á 5000 manna fundi þótt leiðinlegt sé og væri nær að beina reiðinni í uppbyggilegri farveg, sem líklegri er til að skila einhverju. Ef þetta hefur orðið til þess að ríkisstjórnin ætlar að skipa saksóknara til að rannsaka meint brot gegn stjórnvöldum, þá hefur athæfið aðeins leitt okkur nær því lögregluríki, sem íhaldið hefur fengið að búa í haginn fyrir átölulaust í morg ár.

Lögreglan hefur alltaf vantalið mannfjölda í mótmælagöngum og á mótmælafundum, þannig að enginn þarf að láta það koma sér á óvart. Þegar ég las tölur hins frelsaða yfirlögregluþjóns í Reykjavík margfaldaði ég þær strax með tveimur til að fá einhverja trúverðuga mynd af fjöldanum. Lögreglan lagði líka mesta áherslu á "skrílslætin", sem þarf heldur ekki að koma á óvart. Í því ástandi, sem nú er í þjóðfélaginu, kemur hið rétta hlutverk lögreglunnar í ljós: Að verja ríkjandi þjóðfélagsskipan hinna ráðandi stétta og ríkisstjórna þeirra. Þetta heitir víst í dag almannaregla.

Í þriðja lagi eru fjölmiðlarnir enn eitt af tækjum ráðandi stétta þegar á bjátar. Ríkisfjölmiðlar geta að vísu virst hlutlausir í venjulegu árferði en það er fljótt að breytast þegar skórinn kreppir að. Einkareknir fjölmiðlar eru sýnu verri þar sem þeir stjórnast alfarið af pólitík eigenda sinna. Þeir sem hneykslast á túlkun Loga Bergmanns á atburðunum á Austurvelli í gær ættu að minnast þess hverjir eiga Stöð 2.

Niðurstaðan virðist vera, ef marka má bloggara því að eins og ég sagði missti ég af fréttunum í gær, að fjölmiðlar hafi mikið fjallað um eggjakastið og fánahyllinguna en lítið um fundinn og innihald hans. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband