Íhaldið sýnir sitt rétta andlit og vinnur nú leynt og ljóst gegn lýðræðinu.

Hér er grein, sem ég setti á heimasíðu, sem ég var með hér áður fyrr. Greinin birtist 8. maí 2004 og á jafn vel við enn þá.

"Brún hönd í bláum hanska

Ég hef ferðast töluvert um íslenska hálendið og oft dáðst að fagurbláum fjallavötnum, þó ég viti vel að eftir því sem vatnið er blárra, þeim mun minni gróður er í því og þar með lífríki vatnsins rýrara. Stundum hef ég veitt því athygli á uppblásturssvæðum hálendisins þegar sandur og mold fjúka á vötnin en þá færist yfir þau heldur ljót, brún slikja.
Oft heyrist talað um hina bláu hönd íhaldsins, sem voki yfir öllu þjóðfélaginu. Fyrir löngu síðan las ég bók eftir franska blaðamanninn og rithöfundinn André Simone. Bókin hét Evrópa á glapstigum og kom út árið 1942. Í bókinn reifar höfundur uppgang fasismans í Evrópu og lítur yfir sviðið eins og það kom fyrir sjónir á útgáfuárinu. Hann minnir á að það hafi gerst sem ýmsir rithöfundar, stjórnmálamenn, verkalýðsleiðtogar og fleiri vöruðu við í ræðu og riti en töluðu fyrir gersamlega daufum eyrum.
Fyrir mörgum árum ræddum við félagi minn þessa myrku tíma í sögu Evrópu og veltum fyrir okkur hvaða leiðir íhald allra landa myndi fara næst þegar því þætti nóg um uppgang lágstéttanna, nóg komið af félagslegum réttindum og fullmikið um sjálfstæðisbaráttu þjóðanna. Þetta mun hafa verið áður en nýfrjálshyggjan ruddi sér til rúms þó að maður væri svo sem farinn að kynnast forsmekkinum af því sem koma skyldi, svo sem Thatcherismanum í Bretlandi. Við vorum sammála um að við myndum sjá nýjar leiðir, ekki yrðu farnar troðnar slóðir, sem hefðu misheppnast og auðvelt væri að sjá við af fyrri reynslu.
Til að byrja með virtist allt tiltölulega sakleysislegt á yfirborðinu. Einkavæðingar hér og þar og þó að vinstrimenn allra landa vöruðu við þróuninni var lítið hlustað á þá, þetta væru nýir tímar frelsisins. Svo liðuðust Sovétríkin í sundur og alþjóðalögga NATO og Bandaríkjanna sat ein að heiminum.
Allt of langt mál yrði að rifja allt það upp sem gerst hefur í alþjóðamálum og á Íslandi á þessum tíma og því skulum við líta yfir sviðið eins og það er í dag. Á alþjóðavettvangi er bandaríska heimsvaldastefnan allsráðandi með góðum stuðningi hinna "staðföstu þjóða". Í Ísrael fara síonistar (eða síonasistar eins og ég vil kalla þá) sínu fram. Kanar eru í "fyrirbyggjandi" stríðum gegn hryðjuverkum í Afganistan og Írak og aldrei að vita hvert þeir beina haukfránum augum næst. Á meðan fara íhaldsöflin sínu fram í Evrópu og Bandaríkjunum, nú undir nafni öryggis en ekki frelsis því eins og allir vita fer frelsi og öryggi ekki saman í auðvaldsheiminum.
Á Íslandi hafa verið sett lög gegn fjöldauppsögnum. Í undirbúningi eru fasísk útlendingalög og lög gegn atvinnuöryggi opinberra starfsmanna. Efla á víkingasveit lögreglunnar og helst að koma upp "her", en þetta tvennt mætti svo nota gegn borgurum landsins eins hverjar aðrar stormsveitir, allt í nafni frelsis eða öryggis eftir því sem hentar áróðurslega hverju sinni. Rýmka á leyfi lögreglunnar til símahleranna og þarf þá ekki dómsúrskurð til. Áfram á að lækka skatta, sérstaklega á stórfyrirtæki, sem þýðir að minna verður eftir til að setja í menntun, heilbrigðisþjónustu, samgöngur, o.sfrv. Svona mætti lengi telja en útkoman er stórskert réttindi launafólks og alþýðu þessa lands, réttindi, sem mörg okkar telja sjálfsögð mannréttindi í dag en eru það alls ekki í augum íhaldsins!
Það er verið að lauma fasismanum inn bakdyramegin í hinum vestræna heimi í skjóli neyslukapphlaupsins. Brúna höndin er að taka af sér bláa hanskann."

xV


mbl.is Enn langt í land eftir 36 tíma umræður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björgvin R. Leifsson

Mæltu manna heilastur Þrymur. Ekki ætla ég að rengja tilvitnun þína í félaga Ögmund. Ég held að þjóðin sé alveg búin að átta sig á afstöðu íhaldsins í þessu máli. Ég fæ ekki betur séð en að bankahrunsflokkurinn sé að kæfa stjórnmálaumræðuna á þingi með málþófinu. Mér finnst eðlilegt að þingmenn geti haft "langt mál um slík mál" eins og þú orðar það - ef þeir hafa eitthvað fram að færa. Það hefur kreppuliðið ekki haft.

Björgvin R. Leifsson, 4.4.2009 kl. 22:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband