Vetrarsólhvörf

- en EKKI vetrarsólstöður - eru í dag. Tilefni ljóshátíðar norrænna þjóða - þar til kristnin stal af þeim jólunum. Til eru nokkrar kenningar um uppruna stórrar hátíðar í lok ársins. Ein tengist Forn-Egyptum. Þegar þeir voru að smíða tímatal sitt miðað við sólina, þá komu stjörnufræðingar þeirra sér saman um að árið hlyti að vera 360 dagar, þ.e. hinn fullkomni hringur. 5 daga skekkjan var fljót að koma í ljós og þá var 5 frídögum einfaldlega bætt við árið.

Það skyldi þó aldrei vera ...

... að mótmælin hafi einhver áhrif? Það væri nú ekki verra að losna við fleiri toppa, sem fylgdu úr gamla bankanum og vonandi verður þetta hinum bönkunum hvatning til að byrja hreinsunarstörf hjá sér.
mbl.is Innri endurskoðandi óskast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ykkur fyrir bestu svo haldið kjafti og hlýðið!

Kannast menn við rulluna? Árni Páll krataþingmaður sagði skv. fréttinni að "með ráðstöfunum ríkisstjórnarinnar væri verið að tryggja hag þeirra er lakast standa".

"Ég þarf að berja aðeins á þér en það er vel meint". "Ef ég stúta þér þá er það í þína þágu". "Þetta er allt gert með ykkar hag í huga". Inntak allra ráðstafana stjórnvalda kapítalismans um allan heim á öllum tímum.


mbl.is Röng forgangsröðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Og litlu hægrihjörtun hoppuðu ...

... en lentu á maganum. Allt varð vitlaust i bloggheimum í gærkvöldi þegar Þorleifi Gunnlaugssyni, borgarfulltrúa VG, "varð það á" að senda bréf áfram til fjölmiðla með samþykki bréfritara og forráðamanna. Nafn bréfritara átti að þurrka út en gleymdist. Fjölmiðlar voru ekki seinir á sér að greina frá nafnbirtingunni - en minna fór fyrir fréttum af innihaldi bréfsins - og hægri menn allt frá krötum að íhaldi hoppuðu hæð sína af gleði. Nú skyldi sá vinstri græni finna til tevatnsins. Málinu var líkt við níðbréf Bjarna Harðarsonar um flokkssystur sína og dugði ekki minna en að Þorleifur segði af sér. Og hægri menn fóru að sofa í þeirri sælu fullvissu að morgundagurinn bæri afsögn í skauti sér.
En vöknuðu upp við vondan draum! Ég held að menn hefðu átt að æsa sig aðeins minna þar til sannleikurinn kom í ljós. Þá hefðu færri gert sig að fíflum.
mbl.is Álasa ekki Þorleifi fyrir bréfið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Remember that night

Er að horfa og hlusta á Remember that Night með David Gilmour, sem kom út í fyrra. Ekki datt mér í hug að Richard Wright yrði allur að ári. Þetta er líklega síðasta upptaka af honum á tónleikum. Hann átti eitt besta lagið á síðustu stúdíóplötu Pink Floyd, The Division Bell, lagið Wearing the Inside Out.

Davíð situr í skjóli krata.

Þegar hægri armur Alþýðubandalagsins sameinaðist Alþýðuflokknum undir nýju nafni var okkur sagt að hið nýja stjórnmálaafl væri stofnað til höfuðs Sjálfstæðisflokknum og Davíð Oddssyni, þáverandi formanni hans. Ef við miðum við árið 1998 tók það Samfylkinguna níu ár að komast í ríkisstjórn með þeim flokki, sem hún ætlaði að koma frá völdum. Þannig hefur hún viðhaldið valdatímabili íhaldsins - tímabili, sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins og einn af arkitektunum bak við stofnun Samfylkingarinnar, hóf með Viðeyjarstjórninni 1991.
Hótun ISG til samstarfsflokksins er sennilega án fordæma. Af hverju í ósköpunum þarf hún þessa tylliástæðu til að rjúfa stjórnarsamstarfið, sem er handónýtt hvort sem er? Ríkisstjórnin er ráðalaus gagnvart kreppunni og virðist helst hugsa um að útrásarliðið sleppi frá öllu saman og alþýðan borgi brúsann eins og venjulega.
En þetta útspil krataformannsins ber auðvitað vott um þann fádæma hroka, sem þessi kona er haldin svo aðeins verður jafnað við hroka Davíðs Oddssonar gagnvart bæði þjóð og þingi.
Það verður fróðlegt að sjá hvað gerist ef íhaldið velur að fara EKKI þá leið, sem ISG vill. Hvað gerir hún þá? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að hún standi við stóru orðin.
mbl.is Ríkisstjórnin verður að svara kalli um breytingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Spaugstofan sveik ekki ...

... frekar en fyrri daginn. Magnað lokaatriði, sem örugglega hneykslaði flesta trúarhræsnara þessa lands. Sem betur fer var það bara táknrænt ...

Hin kapítalíska kreppa kemur aftur og aftur ...

Þið kannist við bankakreppu,
sú kreppa varð gríðarstór.
Geir vissi' ekki hvaðan hún kom
eða hvort hún fór.

Hún gleypti upp gömlu bankana:
Glitni, Landsbanka, Kaupþing.
Frjáls- var ekki -hyggju hent
né Hólmsteinling.

Skuldirnar hærri en hlutir,
hágengiskrónan kolféll.
Fullveldið riðar til falls
og fær smáskell.

Hún veifaði IMF-vofu
og veinaði ESB-söng
var ýmist á Ice- eða -Save
öll dægrin löng.

Því var það að ríkisstjórn rembdist
að ráðfæra sig Davíð við
um hvernig hún ætti að efla
sitt útrásarlið.

Því kreppan mátti ekki eta
eigendur bankanna víst.
Hún mögnuð var mest upp hjá þeim,
sem máttu við síst.

Íslensk skal alþýðan borga.
Hún er því svo dæmalaust vön.
ASÍ fer ekki' í fýlu
né fýlir grön.

En máski eru mótmæli þögul
sá máttur, sem byggt verður á
þegar reið upp sú alþýða rís,
sem rænd var þá.

Burtu með burgeisastéttir
og bleyður í ríkisstjórn
svo ekki verði enn ein
alþýðufórn.


Kreppan er spaugstofunni að kenna!

Það rifjaðist upp fyrir mér að í fyrsta spaugstofuþætti vetrarins - og þeim eina fyrir kreppu - báðu þeir spaugstofumenn okkur þjóðina um að sjá sér nú fyrir nógu efni úr að moða í vetur. Og viti menn ...

Grýlukvæði ið nýja

Davíð hét karlugla
leið og ljót
með brúnleita hönd
og bláan fót.

Í Svartloftum áð'ann
við Engeyjarsund,
var stundum með krullhaus
en stundum hund.

Á krónunni valt það
hvort Dabbi' átti gott
og hvort hann fékk kikk
í sinn pung og sitt plott.

Meðan krónan var sterk
fékk hann Dabbi kvef
og raulaði ófagurt
útrásarstef.

Er krónan hún féll
og Kaupþing með
þá kættist hans Dabba
klikkaða geð.

Yfirlýsingar
hann út um gaf allt
um IMF, ESB,
appelsín, malt.

Solla hin stirða
'ún stjörf horfði á
og forsætisráðherra
var ei kúgaður þá.

Svo var það eitt sinn
um ókomna tíð
að ríkisstjórnin
sagð' af sér um síð.

Og þau voru öll
svo undurblekkt,
illa til höfð
og aðeins hvekkt.

Þá varð hann Dabbi
einn veslings grís
og varð að eta
það sem úti frís.

Nú íslenska alþýðu
þess eins ég bið
að hún losi sig undireins
við þetta andskotans lið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband