Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Opið bréf til útvarpsstjóra

Eftirfarandi bréfkorn sendi ég útvarpsstjóra í tölvupósti rétt áðan og hvet aðra til að gera slíkt hið sama. Ef fólk vill nota sama orðalag er það velkomið.

"Ég undirritaður og einn af eigendum Ríkisútvarpsins, sem þér veitið forstöðu fyrir hönd þjóðarinnar, mótmæli því að þér hótið fyrrum fréttamanni RÚV málssókn fyrir það eitt að birta áður óbirt viðtal við Geir H. Haarde, forsætisráðherra 30% þjóðarinnar skv. skoðanakönnunum. Ég mótmæli því að fréttamaðurinn fyrrverandi sé þvingaður með þessum hætti að skila upptöku viðtalsins til RÚV og að biðjast afsökunar á að hafa birt viðtalið. Ég krefst þess að þér segið af yður sem útvarpsstjóri hið snarasta.

Björgvin R. Leifsson
brell@simnet.is"


mbl.is Krafa um að viðtali við Geir verði skilað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lög og ólög

Stefán lögreglustjóri segir að handtaka samviskufangans hafi verið lögleg. Ekki ætla ég að efast um það. Lögin eru samin fyrir valdhafana til að viðhalda ríkjandi skipulagi. Mér er til efs að handtökur í ríkjum, þar sem Amnesty International hafa haft afskipti, hafi verið ólöglegar í viðkomandi fasistaríki.


mbl.is Fráleitt ólögmæt handtaka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ISG í ESB ...

... sá erkifjandi.
Betra hefur farið fé
og flutt úr landi.
mbl.is Áfallastjórnuninni lokið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

... og fasisminn ríður í hlað.

Í "fánahyllingunni" um daginn var fólgin pólitísk yfirlýsing um þjónkun Alþingis undir auðvald landsins, sem hefur leitt almenning í þá stöðu, sem hann er í núna. Með því að handtaka þann er stóð að þessum gjörningi afhjúpar lögreglan sig sem eitt af tækjum valdhafa og ráðandi stétta til að viðhalda ríkjandi skipulagi. Þessi einstaklingur er nú pólitískur samviskufangi ríkisstjórnarinnar. Hvar er Amnesty International núna?
mbl.is Mótmæli við lögreglustöðina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kreppuvísur

Bráðum kemur blessuð kreppan,
Bretar fara að hlakka til.
Allir fá þá endurgreiðslu,
í það minnsta hérumbil.

Hver hún verður veit nú enginn,
varla nema Gordon Brown.
Eitt er víst að IceSave verður
IMF við skilyrt lán.


Stýrivextir og IMF

Skv. okkar elskaða seðlabankastjóra voru stýrivextir hækkaðir vegna kröfu IMF - að öðrum kosti fengjum við ekki lán frá sjóðnum. Ekkert bólar á láninu og fyrirtöku umsóknarinnar er frestað æ ofan í æ að kröfu Breta, Hollendinga og ESB. Er þá ekki rétt að lækka stýrivextina aftur - amk þar til umsóknin verður tekin fyrir?

Utanríkisstefna Obama - bergmál frá Bush?

Skv. frétt á mbl. is frá 7. nóvember sl.:

Obama sagði "að það sé ekki hægt að sætta sig við það að Íranar vilji koma sér upp kjarnorkuvopnum", og hvatti "írönsk stjórnvöld til að hætta að styðja hryðjuverkahópa."

Það var og. Fyrir Íraksinnrás voru engir hryðjuverkahópar starfandi í Írak og engin gereyðingavopn þar að finna. Eftir innrás er enn engin írösk gereyðingarvopn þar að finna (en etv bandarísk) og allt morandi af al Quaida liðum. Það skyldi þó aldrei vera að meint kjarnorkuvopnaframleiðsla írana sé stórlega orðum aukin af CIA og Bush stjórninni. Amk styðja íranar ekki al Quaida - frekar en írakar gerðu. Ef Obama ætlar að apa utanríkispólitík Bandaríkjanna gagnvart Íran eftir Bush stjórninni er mjög líklegt að hið sama verði uppi á teningnum gagnvart síonistunum í Ísrael og Palestínumönnum. Það er ekki nóg að ætla að draga herliðið út úr Írak en ætla að halda áfram "stríðinu gegn hryðjuverkum" að öðru leyti. Þá mun lítið breytast í Miðausturlöndum þó að nýr Bandaríkjaforseti sé svartur demókrati.


mbl.is Lofar að taka á efnahagsvandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fundir og mannfagnaður?

Ég bý úti á landi og var ekki á mótmælafundinum í gær, 8. október. Ég sá heldur ekki fréttir af fundinum fyrr en seint um kvöldið á rúv.is, mbl.is og textavarpinu. Að ógleymdu moggablogginu. Menn hafa misjafnar skoðanir á fundinum, eggjakasti og fánahyllingu eins og gengur en rauði þráðurinn virðist mér þó vera hneykslun á framferði eggjakastara, lögreglu og fjölmiðla. Varðandi eggjakastara, þá er ekkert skrýtið að einhverjir sjái sér slíkan leik á borði á 5000 manna fundi þótt leiðinlegt sé og væri nær að beina reiðinni í uppbyggilegri farveg, sem líklegri er til að skila einhverju. Ef þetta hefur orðið til þess að ríkisstjórnin ætlar að skipa saksóknara til að rannsaka meint brot gegn stjórnvöldum, þá hefur athæfið aðeins leitt okkur nær því lögregluríki, sem íhaldið hefur fengið að búa í haginn fyrir átölulaust í morg ár.

Lögreglan hefur alltaf vantalið mannfjölda í mótmælagöngum og á mótmælafundum, þannig að enginn þarf að láta það koma sér á óvart. Þegar ég las tölur hins frelsaða yfirlögregluþjóns í Reykjavík margfaldaði ég þær strax með tveimur til að fá einhverja trúverðuga mynd af fjöldanum. Lögreglan lagði líka mesta áherslu á "skrílslætin", sem þarf heldur ekki að koma á óvart. Í því ástandi, sem nú er í þjóðfélaginu, kemur hið rétta hlutverk lögreglunnar í ljós: Að verja ríkjandi þjóðfélagsskipan hinna ráðandi stétta og ríkisstjórna þeirra. Þetta heitir víst í dag almannaregla.

Í þriðja lagi eru fjölmiðlarnir enn eitt af tækjum ráðandi stétta þegar á bjátar. Ríkisfjölmiðlar geta að vísu virst hlutlausir í venjulegu árferði en það er fljótt að breytast þegar skórinn kreppir að. Einkareknir fjölmiðlar eru sýnu verri þar sem þeir stjórnast alfarið af pólitík eigenda sinna. Þeir sem hneykslast á túlkun Loga Bergmanns á atburðunum á Austurvelli í gær ættu að minnast þess hverjir eiga Stöð 2.

Niðurstaðan virðist vera, ef marka má bloggara því að eins og ég sagði missti ég af fréttunum í gær, að fjölmiðlar hafi mikið fjallað um eggjakastið og fánahyllinguna en lítið um fundinn og innihald hans. Ég get ekki sagt að það komi mér á óvart.


Skilyrt lán fra ESB

Eftirfarandi frétt birtist á vef RÚV núna í hádeginu:

"Evrópusambandið bauð Íslendingum lán á vildarkjörum vegna fjármálakreppunnar en gerði um leið grein fyrir því að fylgja þyrfti ákvæðum EES-samningsins og ekki mætti mismuna fólki eftir þjóðerni. Þá var lýst þeirri von að deilur Íslands og einstakra aðildarríkja yrðu leiddar til lykta. Loks var útlistað að allar aðildarþjóðir Evrópusambandsins yrðu að samþykkja aðstoðina. Þetta staðfestir Alan Seatter, yfirmaður hjá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins."

Hér er greinilega um að ræða fjárkúgun af verstu sort, sem er upprunnin hjá Bretum og etv Hollendingum. Ljóst er orðið að frestun IMF á láni til Íslands er þrýstingum frá þessum tveimur þjóðum - og yfirstjórn ESB. Líklegt er að ástæða þess að aðrar Evrópuþjóðir fresta lánveitingum til Íslands er þrýstingur frá yfirstjórn ESB, en þær eru flestar bundnar á klafa hins yfirþjóðlega skrýmslis.

Er þetta nú þjóðabandalag sem Ísland á að sækja um aðild að? Er okkur einhver aðstoð í EES samningnum í þessum hremmingum? Hvernig halda menn að staða Íslands væri innan ESB ef hún er svona utan ESB?

Ísland á að segja upp EES samningnum án tafar.


"Fríkeypis frelsi"?

Í skjóli kreppunnar skal enn og aftur ráðist á Ríkisútvarpið, að sjálfsögðu með "frelsið" að leiðarljósi. Svokallaðir "ókeypis" fjölmiðlar eiga mjög erfitt uppdráttar vegna samdráttar á auglýsingamarkaði og Skjáreinn hefur gripið til þess ráðs að kenna RÚV um allt saman - með góðum undirtektum yfirmanna Stöðvar 2, sem er annar "frjáls" fjölmiðill á markaðnum. Mér skilst reyndar að það hafi komið í ljós núna Í vikunni að yfirmenn þessara stöðva séu á bankastjóralaunum og verður fróðlegt að sjá hvort þeir skammta sjálfum sér launalækkun í bráð - en það er önnur saga.

Nú er enginn fjölmiðill frjálsari eða óháðari en eigendur hans leyfa. Það hefur oft sýnt sig á umfjöllun þessara einkareknu fjölmiðla um hin ýmsu mál, að þeir eru ekkert annað en málpípa eigenda sinna. Enn fremur sýna þeir lítið annað en það sem þeir telja að geti aukið áhorfið eða lesturinn - og þar með áhuga auglýsenda á því að auglýsa hjá viðkomandi fjölmiðli. Þetta bitnar yfirleitt á gæðum þátta eða lesefnis. Þessir fjölmiðlar hafa engum skyldum að gegna við áhorfendur eða lesendur.

Enn fremur er vert að staldra aðeins við "ókeypis". Það að við borgum ekki afnotagjöld eða áskrift fyrir Skjáeinn né Fréttablaðið þýðir ekki að þessir fjölmiðlar séu ókeypis. Auglýsendur greiða nefnilega fyrir auglýsingarnar - og ýta síðan kostnaðinum út í verðlagið. Þanng að á endanum eru það neytendur, sem borga brúsann, burtséð frá því hvort við notum þessa fjölmiðla eða ekki.

Það er ekki mikið, sem ég nenni að glápa á á Skjáeinum. Nánast allt efnið eru lélegir og ódýrir bandarískir þættir eða þeirra eigin stælingar á slíkum þáttum. Ekki mun ég gráta þennan fjölmiðil þó að hann legðist af. En ef framlenging á líftíma hans er fólgin í árás á RÚV, þá verð ég að segja að farið hefur fé betra í kreppunni en Skjáreinn.


mbl.is Telja RÚV þurfa að fara út af auglýsingamarkaði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband